Saturday, December 15, 2012

Topp 5 kennsluforrit 2012 (iOS)

Nú þegar iPad verkefnið hefur verið keyrt sem samsvarar tæpu skólaári er rétt að líta um öxl og skoða nokkur af þeim fjölmörgu forritum sem við höfum notað með nemendum okkar. Hér skal bent á þau fimm forrit sem gefist hafa best.

5. sæti Upad light


Verð: Ókeypis

Frumherjinn. Enn hefur ekkert forrit komið fram sem nemendum finnst betra að handskrifa í en Upad. Það er einfaldlega einstaklega auðvelt að skrifa eðlilega í forritið. Þá hafa nemendur náð mikilli færni í að klippa verkefni úr kennslubókum inn í Upad og skrifa í kring, t.d. í stærðfræði. Galli forritsins er að upp á síðkastið hefur það verið dálítið brokkgengt hjá sumum nemendum. Heilu síðurnar hafa verið að hverfa fyrirvaralaust. Hvað veldur vitum við ekki. 

Allt í allt, þrjár stjörnur af fimm.



4. sæti iBooks


Verð: Ókeypis




Rafbækur hannaðar í iBooks Author (fyrir Mac) eru draumur í iBooks (iOS). Mjög auðvelt er fyrir nemendur að vinna texta, greina og glósa og afkastahraði í bóklegum greinum margfaldast. Möguleikarnir eru gríðarlegir í notkun myndefnis og þrívíddar, þótt við höfum farið þá leið að íþyngja ekki bókunum um of með slíku efni. Helsti vandinn við iBooks er að stundum getur verið dálítið maus að opna stærri bækur. Við höfum ekki gefið þær út í gegnum Apple heldur sent í tölvupósti eða notað Dropbox (eða hlekki á Dropbox). Það þarf stundum margar tilraunir áður en bókin opnast, en hún gerir það alltaf á endanum. Annar galli er að sjálfsögðu sá að staðallinn er lokaður og gagnast aðeins á iOS-tækjum.

Þrjár og hálf stjarna


3. sæti Qwiki


Verð: Ókeypis



Qwiki er lygilegt lítið app. Einskonar köngulló sem dembir sér á Wikipediu og aflar upplýsinga um það sem þú óskar þér. Frábært í grunnrannsóknir eða nánari skoðun á námsefni. Nokkuð öruggt þótt af og til reynist upplýsingar ekki með öllu nákvæmar. Skilar upplýsingum í þægilegum hlutföllum myndefnis og texta og býður upp á nánari skoðun. Að flestu leyti mun eðlilegri miðlun upplýsinga en langar greinar lítið myndskreyttar.

Fjórar stjörnur.


2. sæti Nearpod


Verð: Ókeypis



Ekkert eitt forrit brúar betur bilið milli hefðbundinna kennsluhátta og spjaldtölvukennslu en Nearpod. Forritið virkar þannig að þú hleður „glærum“ upp á netið og bætir við þær gagnvirkum verkefnum, spurningum, myndum eða hverju öðru sem þú kýst. Í kennslustund er nóg að láta nemendur fá lítinn kóða og þá breytist iOS-tækið í gagnvirkan skjá. Nemendur geta leyst verkefni í rauntíma og sent kennara og allar upplýsingar eru varðveittar á netinu. Maður þarf þó að kaupa skólaaðgang vilji maður nýta þá möguleika til fullnustu (en þá fæst um leið möguleiki á að nota önnur tæki en iOS). Kennari er stýrandi og er bundinn af þeim glærum sem hann setti í safnið en hann getur auðveldlega metið jafnóðum hvort áhersluatriði eru að skila sér og brugðist við ef upp á vantar. Auk þess tryggir tækið að allir nemendur geta svarað öllum spurningum og kennari losnað við ægivald framhleynustu nemendanna. Afar snjallt forrit og hagkvæmt.

Fjórar og hálf stjarna


1. sæti Keynote

Verð: 9,99 dollarar

Aðalsmerki Apple er að tækin eru ekki aðeins auðveld í notkun heldur skila þau fallegum afurðum. Aðalsmerki 1:1 spjaldtölvukennslu er að nemandinn er settur í stýrimannshlutverk í stað þess að vera teymdur áfram. Mörg forrit eru góð til þess að leyfa nemandanum að kynna verk sín og afurðir en ekkert hefur reynst okkur betra en Keynote. Kynningar nemenda, sem gjarnan eru lokapunktur á miklu lærdómsferli, eru ekki aðeins fallegar heldur einkar innihaldsríkar og auðveldar í uppsetningu. Gildir einu hvort nemendur eru að kynna fyrirmyndir sínar eða skipuleggja heimsreisur – forritið tekur af þeim ómakið og leyfir þeim að leggja tíma sinn og orku í það sem mestu skiptir, íhygli og sköpun.

Fimm stjörnur







Saturday, November 17, 2012

Klippikort

Frá því í haust höfum við verið að þróa svokölluð klippikortsverkefni. Það eru skapandi verkefni sem nemendur hafa val um að taka og tengjast í senn námsgreinum og smiðjuþemum. Hver nemandi þarf að ljúka einu til tveim slíkum verkefnum í hverju fagi. Hér má sjá dæmi um afraksturinn:














Dagur íslenskrar tungu, menntamálaráðherra og segulljóð

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra heimsótti Úllónolló á degi íslenskrar tungu. Hún kíkti í kennslustund í M&M (Maður og menning) sem er bræðingur af samfélagsgreinum og heimspeki. Að því loknu opnaði hún nýtt íslenskt app, Segulljóð. Ásamt nemendum tíunda bekkjar orti hún ljóð um einhyrning.




Thursday, July 5, 2012

Tvö ókeypis öpp

Video Star
videostarapp.com
Verð: 0 kr (júlí 2012)


Þetta app er í raun bráðsniðugt. Þú getur á einfaldan hátt búið til tónlistarmyndband. Forritið notast við tónlistarsafnið í pöddunni og þú getur bætt kvikmynd ofan á hvaða lag sem er. Allskyns útlitsbrellur eru ennfremur í boði.

Auk þess augljósa að gaman er að taka mynd af sjálfum sér eða vinunum „syngja“ og dansa þá má nota appið í allskyns skólaverkefni. Hér er t.d. dæmi um íslenskuverkefni:



Hér var lagt upp með stælingu á myndbandinu við Subbterranian Homesick Blues eftir Bob Dylan.

Auðvelt er að finna lög með félagsfræðilegt inntak og krefja nemendur um myndræna túlkun eða útfærslu. 

Og svo er ekkert sem segir að myndböndin þurfi að vera gerð við tónlist. Það er hægur vandi að nota talmál og búa til myndefni ofan á það. Slík verkefni mætti gera í hvaða fagi sem er.


Verð: 0 kr (júlí 2012)



Þau verða ekki mikið einfaldari öppin. Hér lærir nemandinn að áætla tíma og þjálfast í tímatöku í huganum. 

Thursday, May 10, 2012

Rafrænar innlagnir aðgengilegar nemendum



Með heimasíðunni educreations.com ásamt tilheyrandi Ipad-forriti (appi) er mögulegt að búa til rafrænar innlagnir á hvíta töflu sem eru mjög aðgengilegar fyrir nemendur. Þá hefur framkvæmdin við að búa þær til aldrei verið auðveldari.

 Það tekur jafn langan tíma að búa til stærðfræðiinnlögn með einu dæmi, setja hana á netið á sérstakan stað sem aðeins er opin meðlimum í bekknum þínum, eins og það tekur að reikna það á blað. Um leið og því er lokið getur nemandi þinn hvar sem hann er staddur í heiminum horft og hlustað á visku þína.

Það er hægt að horfa á innlagnirnar í öllum tækjum sem komast á netið en einungis hægt að búa þær til með I-pad.

 Víðir þórarinsson, stærðfræðikennari

Wednesday, May 9, 2012

Pöddurnar og prófin

Það er ástæða til að huga sérstaklega að námsmati, og þá ekki síst prófum, hjá nemendum sem nota spjaldtölvur í námi sínu. Við prófuðum nokkrar útfærslur í próftíðinni nú – og mun hér verða skýrt frá einu dæmi.

Prófið í náttúrufræði var þannig uppbyggt að settar voru upp 20 stöðvar í stofunni, númeraðar frá 1 og upp í 20 og auðkenndar með QR-kóðum.


Nemendur fengu fyrirmæli um það kvöldið fyrir próf að setja QR-lesara í pöddurnar í gegnum Facebook. Langflestir mættu með þá í prófið en örfáir fengu aðstoð við að setja þá inn áður en próf hófst.


Allt námsefni sem var til prófs var rafrænt og öll hjálpargögn leyfð (nemendur máttu mæta með glósur í síma, iPod eða fartölvu og nokkuð var um að nemendur í 8. og 10. bekk (sem ekki eru með iPad) nýttu sér það).

Þrjár stöðvar voru fartölvustöðvar þar sem 4 fartölvur voru á hverjum stað og tengdar rafrænni könnun sem hver þurfti að leysa án aðstoðar bekkjarfélaganna. Hinar 17 stöðvarnar voru samvinnustöðvar. Kóðarnir á stöðvunum vísuðu á verkefni sem sjá má hér:

1, 2, 3, 4, 5, 6, 7, 8, 9, 10, 11, 12, 13, 14, 15, 16, 17, 18, 19, 20.

Stöðvar 5, 12 og 19 voru einstaklingsprófsstöðvar með 35 spurningum úr námsefninu.

Nemendum var skipt í 4 manna hópa með 1 eða 2 iPadda á hóp og nemendur úr öllum þremur árgöngum (8.-10. bekk).

Öllum svörum var skilað rafrænt á netfang mitt (sem nemendur kunna fyrir) nema svör úr einstaklingsprófum. Þau sæki ég á sérstakan, lokaðan vef.

Áður höfðu nemendur skilað svokölluðum lokaverkefnum. En það eru frjáls verkefni þar sem nemendur hafa frjálsar hendur við vísindalega sköpun, rannsóknir eða tilraunir. 

En prófverkefnin voru bæði verkleg og bókleg, og jafnvel í einhverjum tilfellum leikur eða söngur. Hér má sjá örfá dæmi:







Hér áttu nemendur að láta dósir standa á brúninni með því að setja í þær rétt magn af vatni. Þessa og tvær álíka þrautir fann ég á Youtube og setti inn í prófið.










Oft voru svörin einfaldlega texti, jafnvel beint upp úr glósum nemandans sjálfs.




Stundum kusu nemendur að svara með orðum í stað þess að skrifa svörin. 

Að loknu prófi átti ég eina 400 ólesna tölvupósta sem verulega gaman var að fletta gegnum og skoða. Oft var mikil spenna og mikið fjör, sérstaklega við verklegar þrautir.

Síðasti hluti einkunnar í náttúrufræði verður bátasigling og náttúrurannsóknir á Elliðavatni í næstu viku.



Einkunn mun svo samanstanda af þessum þremur þáttum: 

Lokaverkefni / Próf (einstaklings- og samvinnu) / Bátasigling og rannsóknir.