Saturday, December 15, 2012

Topp 5 kennsluforrit 2012 (iOS)

Nú þegar iPad verkefnið hefur verið keyrt sem samsvarar tæpu skólaári er rétt að líta um öxl og skoða nokkur af þeim fjölmörgu forritum sem við höfum notað með nemendum okkar. Hér skal bent á þau fimm forrit sem gefist hafa best.

5. sæti Upad light


Verð: Ókeypis

Frumherjinn. Enn hefur ekkert forrit komið fram sem nemendum finnst betra að handskrifa í en Upad. Það er einfaldlega einstaklega auðvelt að skrifa eðlilega í forritið. Þá hafa nemendur náð mikilli færni í að klippa verkefni úr kennslubókum inn í Upad og skrifa í kring, t.d. í stærðfræði. Galli forritsins er að upp á síðkastið hefur það verið dálítið brokkgengt hjá sumum nemendum. Heilu síðurnar hafa verið að hverfa fyrirvaralaust. Hvað veldur vitum við ekki. 

Allt í allt, þrjár stjörnur af fimm.



4. sæti iBooks


Verð: Ókeypis




Rafbækur hannaðar í iBooks Author (fyrir Mac) eru draumur í iBooks (iOS). Mjög auðvelt er fyrir nemendur að vinna texta, greina og glósa og afkastahraði í bóklegum greinum margfaldast. Möguleikarnir eru gríðarlegir í notkun myndefnis og þrívíddar, þótt við höfum farið þá leið að íþyngja ekki bókunum um of með slíku efni. Helsti vandinn við iBooks er að stundum getur verið dálítið maus að opna stærri bækur. Við höfum ekki gefið þær út í gegnum Apple heldur sent í tölvupósti eða notað Dropbox (eða hlekki á Dropbox). Það þarf stundum margar tilraunir áður en bókin opnast, en hún gerir það alltaf á endanum. Annar galli er að sjálfsögðu sá að staðallinn er lokaður og gagnast aðeins á iOS-tækjum.

Þrjár og hálf stjarna


3. sæti Qwiki


Verð: Ókeypis



Qwiki er lygilegt lítið app. Einskonar köngulló sem dembir sér á Wikipediu og aflar upplýsinga um það sem þú óskar þér. Frábært í grunnrannsóknir eða nánari skoðun á námsefni. Nokkuð öruggt þótt af og til reynist upplýsingar ekki með öllu nákvæmar. Skilar upplýsingum í þægilegum hlutföllum myndefnis og texta og býður upp á nánari skoðun. Að flestu leyti mun eðlilegri miðlun upplýsinga en langar greinar lítið myndskreyttar.

Fjórar stjörnur.


2. sæti Nearpod


Verð: Ókeypis



Ekkert eitt forrit brúar betur bilið milli hefðbundinna kennsluhátta og spjaldtölvukennslu en Nearpod. Forritið virkar þannig að þú hleður „glærum“ upp á netið og bætir við þær gagnvirkum verkefnum, spurningum, myndum eða hverju öðru sem þú kýst. Í kennslustund er nóg að láta nemendur fá lítinn kóða og þá breytist iOS-tækið í gagnvirkan skjá. Nemendur geta leyst verkefni í rauntíma og sent kennara og allar upplýsingar eru varðveittar á netinu. Maður þarf þó að kaupa skólaaðgang vilji maður nýta þá möguleika til fullnustu (en þá fæst um leið möguleiki á að nota önnur tæki en iOS). Kennari er stýrandi og er bundinn af þeim glærum sem hann setti í safnið en hann getur auðveldlega metið jafnóðum hvort áhersluatriði eru að skila sér og brugðist við ef upp á vantar. Auk þess tryggir tækið að allir nemendur geta svarað öllum spurningum og kennari losnað við ægivald framhleynustu nemendanna. Afar snjallt forrit og hagkvæmt.

Fjórar og hálf stjarna


1. sæti Keynote

Verð: 9,99 dollarar

Aðalsmerki Apple er að tækin eru ekki aðeins auðveld í notkun heldur skila þau fallegum afurðum. Aðalsmerki 1:1 spjaldtölvukennslu er að nemandinn er settur í stýrimannshlutverk í stað þess að vera teymdur áfram. Mörg forrit eru góð til þess að leyfa nemandanum að kynna verk sín og afurðir en ekkert hefur reynst okkur betra en Keynote. Kynningar nemenda, sem gjarnan eru lokapunktur á miklu lærdómsferli, eru ekki aðeins fallegar heldur einkar innihaldsríkar og auðveldar í uppsetningu. Gildir einu hvort nemendur eru að kynna fyrirmyndir sínar eða skipuleggja heimsreisur – forritið tekur af þeim ómakið og leyfir þeim að leggja tíma sinn og orku í það sem mestu skiptir, íhygli og sköpun.

Fimm stjörnur







No comments:

Post a Comment